Erlent

Hundruð þúsunda mótmæltu

Beirút í dag.
Beirút í dag. MYND/AP

Staða líbönsku ríkisstjórnarinnar veiktist enn frekar í dag þegar hundruð þúsunda stuðningsmanna Hizbollah-samtakanna fylktu liði í Beirút og kröfðust afsagnar hennar. Fólkið ætlar ekki að láta af mótmælum fyrr en stjórnin er öll.



Líbanir eru orðnir vanir því að ólga ríki í stjórnmálum landsins en nú er spennustigið í þjóðfélaginu orðið meira en góðu hófi gegnir. Að boði Hizbollah-samtakanna og bandamanna þeirra komu hundruð þúsunda Líbana saman í miðborg Beirútar í dag og skilaboð þeirra sem stóðu fyrir mótmælunum voru mjög einföld: Að ríkisstjórnin segði af sér og það sem fyrst.

Fjöldafundurinn stóð fram eftir degi og í kjölfarið hófst svo mótmælaseta fyrir framan líbanska stjórnarráðið til að knýja á um afsögn ríkisstjórnar Fuads Saniora. Hizbollah-menn telja ríkisstjórnina aðeins lepp Bandaríkjamanna, meðal annars vegna þess að hún sýndi þeim lítinn stuðning þegar átökin við Ísraela stóðu yfir í sumar. Aðeins er rúm vika liðin frá því að ámóta mikill mannfjöldi kom saman til að sýna ríkisstjórninni stuðning í kjölfar morðsins á Pierre Gemayel iðnaðarráðherra þannig að sundurlyndisfjandinn leikur augljóslega lausum hala í Líbanon eins og svo oft áður. Átakalínurnar í stjórnmálum landsins eru hins vegar fyrst og fremst dregnar eftir afstöðunni til nágrannanna í Sýrlandi. Á dögunum sögðu nokkrir ráðherrar úr röðum Hizbollah sig úr stjórninni vegna deilna um verksvið dómstóls Sameinuðu þjóðanna sem rétta á yfir grunuðum morðingjum Rafiks Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra, en þeir tengjast sýrlensku leyniþjónustunni. Fyrir mótmælin í dag stóð ríkisstjórnin mjög veikum fótum og staða hennar nú er orðin næsta vonlaus þegar ljóst er að hún nýtur nánast einskis stuðnings á meðal sjía, stærsta trúarhóps landsins og aðalstuðningsmanna Hizbollah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×