Erlent

Engin náttúruleg orsök

Yegor Gaidar sem talið er að eitrað hafi verið fyrir.
Yegor Gaidar sem talið er að eitrað hafi verið fyrir. MYND/AP

Rússneskir læknar hafa sagt að þeir hafi ekki fundið neinar náttúrulegar orsakir fyrir veikindum Yegor Gaidar, fyrrum forsætisráðherra Rússlands. Gaidar er maðurinn á bakvið efnahagsumbætur Rússlands. Talsmaður Gaidars sagði að læknar héldu að þetta væri efni sem þeir gætu ekki borið kennsl á en að þeir teldu að of snemmt væri að segja um hvort að efnið væri eitur eða ekki.

Gaidar var á ferðalagi í Írlandi fyrr í mánuðinum og varð veikur daginn eftir að fyrrum rússneski njósnarinn Alexander Litvinenko lést vegna pólóníum eitrunar. Gaidar var yfirmaður efnahagsumbóta á tímum Boris Yeltsin og er talið að hann hafi eignast einhverja óvini á þeim tíma. Þá hefur hann gagnrýnt Vladimir Pútin Rússlandsforesta en hann er þó ekki talinn hans helsti andstæðingur.

Anatoly Chubais, fyrrum samstarfsmaður Yeltsin og núverandi forstjóri helsta raforkuframleiðanda Rússlands sagði að veikindin væru grunsamleg. Hann sagði ennfremur að ef þau væru skoðuð í samhengi við morðin á Önnu Politkovskaya og Alexander Litvinenko, væri ljóst að þau kæmu þeim sem vildu styrkja völd Kremlverja mjög vel þar sem þau hefðu öll verið mikilvægir gagnrýnendur þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×