Erlent

Pútin ver bann við kjötinnflutningi

Vladimir Putin, forseti Rússlands.
Vladimir Putin, forseti Rússlands. MYND/AP

Vladimir Pútin, Rússlandsforseti, hefur varið þá ákvörðun Rússa að banna allan innflutning á kjöti frá Póllandi. Bannið hefur staðið í nærri ár og eru Pólverjar hreint ekki sáttir við það. Hafa þeir meðal annars komið í veg fyrir viðræður milli Evrópusambandsins og Rússa um nýjan samstarfssamning.

Pútin sakaði Pólverja meðal annars um að halda hlífiskildi yfir smyglurum sem að aftur hefði slæm áhrif á framleiðendur og orðspor pólsks kjöts. Hann hvatti þó til viðræðna um málið og sagði að það væri eina leyðin til þess að leysa málið.

Deilan á milli ríkjanna tveggja snýst um gæði pólsks kjöts en sérfræðingar Evrópusambandsins hafa vottað það en Rússar vilja senda sína eigin sérfræðinga til þess að votta kjötið. Deilan hefur síðan snúið upp á sig og í gær hótuðu Rússar því að banna allan innflutning á kjöti frá Evrópusambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×