Fótbolti

Celtic ætti fullt erindi í ensku úrvalsdeildina

Gordon Strachan
Gordon Strachan NordicPhotos/GettyImages

Gordon Strachan og lærisveinar hans í skoska liðinu Glasgow Celtic mæta Manchester United í Meistaradeildinni í kvöld og á blaðamannafundi fyrir leikinn sagði Strachan að ekki væri jafn mikill munur á ensku úrvalsdeildinni og þeirri skosku og margir héldu.

Strachan lék á árum áður með Manchester United og hefur reynslu af þjálfun í efstu deild á Englandi. Hann vill ekki meina að enska deildin sé jafn sterk og menn vilji meina.

"Við vitum að skoska úrvalsdeildin er ekki jafn sterk og sú enska, en það er ekki svo mikill munur á þessum deildum. Ég veit að okkar lið gæti klárlega verið í efri hluta deildarinnar og ég held að enska deildin sé orðin aðeins of stór með sig á síðustu árum. Hún er yfirleitt mjög góð, en það eru hreint ekki eintómir stórleikir í ensku úrvalsdeildinni," sagði Strachan, en hans menn hafa náð 15 stiga forskoti í deildinni heima fyrir og geta því lagt góða áherslu á baráttuna í Evrópukeppninni.

Þess má geta að sjónvarpsstöðvar Sýn verður með fjórar beinar útsendingar frá Meistaradeildinni í dag. Hátíðin hefst með leik CSKA Moskvu og Porto klukkan 17:15 á Sýn. Klukkan 19:30 hefst svo leikur Celtic og Manchester United á Sýn og á sama tíma verða leikir Arsenal og HSV á Sýn Extra og leikur Real Madrid og Lyon á Sýn Extra 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×