Erlent

Norðmenn vilja meira erlent vinnuafl til að halda niðri launum

Frá Osló

Norðmenn íhuga að opna landamæri sín fyrir verkafólki frá Rúmeníu og Búlgaríu, til þess að koma í veg fyrir launahækkanir, sem þeir kæra sig ekki um.

Norðmenn hafa notið góðs af vinnuafli frá fyrrverandi Austantjaldsríkjum undanfarin ár og er talið að yfir eitthundrað þúsund manns þaðan séu nú á vinnumarkaði í Noregi, flestir frá Póllandi. Efnahagur Noregs er í uppsveiflu og þar er nú skortur á vinnuafli.

Rúmenía og Búlgaría fá aðild að Evrópusambandinu um næstu áramót og íbúar þessara landa verða þarmeð aðilar að vinnumarkaði aðildarríkjanna. Noregur er ekki, frekar en Ísland, aðili að Evrópusambandinu, en Norðmenn hafa, eins og Íslendingar, undirritað samning um frjálst flæði vinnuafls.

Íslendingar ætla að nota sér leyfðan aðlögunartíma og hafa því frestað því að opna landamærin fyrir vinnuafli frá Rúmeníu og Búlgaríu. Norðmenn munu hinsvegar, að öllum líkindum opna sín landamæri upp á gátt.

Jan Erik Stoested, ráðherra í Atvinnumálaráðuneytinu segir að þeir séu hlynntir því að fá vinnuafl frá þessum löndum. Hann segir að áhersla verði lögð á að tryggja að þetta fólk fái sömu laun og réttindi og innfæddir.

Stoested segir að það sé skortur á vinnuafli í Noregi og undir venjulegum kringumstæðum myndi það þrýsta launum uppávið. Þess í stað fái þeir nýtt vinnuafl, sem auki jafnvægi á vinnumarkaði og í launum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×