Viðskipti innlent

Hagnaður Exista yfir væntingum

Fjármálaþjónustufyrirtækið Exista skilaði 27,6 milljörðum krónum í hagnað á þriðja fjórðungi ársins. Hagnaðurinn á fyrstu níu mánuðum ársins nam 24,3 milljörðum króna. Þetta er talsvert meira en greiningardeildir þriggja stærstu viðskiptabankanna gerðu ráð fyrir. Félagið skilaði rúmum 50 milljörðum króna á öllu síðasta ári.

Exista hf., sem er með starfsemi hér á landi og í Bretlandi, starfar á sviði fjármálaþjónustu, einkum trygginga og eignaleigu, m.a. undir merkjum VÍS og Lýsingar og er kjölfestufjárfestir í nokkrum af stærstu fyrirtækjum landsins, þar á meðal Kaupþingi, Bakkavör Group og Símanum.

Í tilkynningu frá Exista kemur fram að rekstrarhagnaður af starfsemi hafi numið 29 milljörðum króna á fyrstu 9 mánuðum ársins en 4,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi.

Eigið fé nam 171 milljarði króna og var eiginfjárhlutfall 46 prósentum á þriðja ársfjórðungi. Arðsemi eigin fjár nam 25 prósentum á ársgrundvelli. Þá námu heildareignir félagsins 374 milljörðum króna.

Í tilkynningunni er haft eftir Lýði Guðmundssyni, stjórnarformanni Exista, að fjórðungurinn hafi verið afar viðburðaríkur hjá Exista. „Hagnaður Exista á þriðja ársfjórðungi er vel viðunandi. Markmið okkar er að breikka og efla rekstrarstoðir félagsins enn frekar á næstu misserum," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×