Erlent

Smygla fólki yfir Eyrarsundsbrúna

Lögregla í Svíþjóð hefur handtekið sjö manns í tengslum við það sem talið er umfangsmikið smygl á fólki til landsins. Fram kemur á vef Nyhedsavisen að lögregla hafi stöðvað fjórar smygltilraunir frá því á föstudag en í öll skiptin var reynt að smygla fólki frá Danmörku og yfir Eyrarsundsbrúna.

Lögregluna í Svíþjóð grunar að glæpahópur standi á bak við fólksflutningana og haft er eftir yfirmanni hjá sænsku lögreglunni að smygl á fólki hafi aukist mjög í haust. Flestir þeirra sem reynt hefur verið að smygla koma frá Írak og er þeim smyglað í venjulegum fólksbílum.

Lögregla reynir nú að uppræta smyglhringinn en það reynist erfitt því fólki sem smyglað er vill ekki gefa upp hvernig það hefur komist til Norðurlanda. Um 20 Írakar hafa sótt um hæli í Svíþjóð í kjölfar atburðanna síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×