Viðskipti innlent

Hagnaður Glitnis tæplega tvöfaldaðist

Glitnir banki skilaði 8,8 milljarða króna hagnaði á þriðja fjórðungi ársins. Þetta er 1,2 milljarða króna lækkun á milli fjórðunga. Til samanburðar nam hagnaður bankans á sama tíma fyrir ári 4,8 milljörðum króna. Hagnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins nemur 28,9 milljörðum króna sem er tæp tvöföldun á milli ára.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að hagnaður fyrir skatta hafi numið 10,4 milljörðum króna á fjórðungnum samanborið við 13,1 milljarð króna öðrum ársfjórðungi. Hagnaður fyrir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins nam hins vegar 34,7 milljörðum króna samanborið við 18,2 milljarða á sama tíma í fyrra.

Á fyrstu níu mánuðum ársins myndaðist 38 prósent af hagnaði bankans fyrir skatta af starfsemi utan Íslands eða 13,2 milljarðar af 34,7 milljörðum króna, að því er segir í tilkynningunni.

Eigið fé Glitnis jókst um 53 prósent á tímabilinu og nam 130 milljörðum króna í lok tímabilsins. Eiginfjárhlutfall á CAD grunni var 15,9 prósent, þar af A-hluti 10.9 prósent.

Haft er eftir Bjarna Ármanssyni, forstjóra Glitnis, að afkoman sé ánægjuleg. Tekjumyndun bankans sé nú dreifðari og tekjusviðin skili öll góðum hagnaði. „Í lok ágúst tilkynnti Glitnir að fjármögnun bankans fyrir árið 2007 væri tryggð. Við væntum þess að sú góða afkoma sem við kynnum nú sé vísbending um framhaldið og hlökkum til að takast á við það sameiginlega verkefni okkar að Glitnir nái nýjum hæðum á komandi mánuðum og misserum," segir Bjarni í tilkynningunni.

Tilkynning frá Glitni til Kauphallar Íslands






Fleiri fréttir

Sjá meira


×