Viðskipti innlent

Afkoma Össurar undir væntingum

Stoðtækjafyrirtækið Össur skilaði 5,7 milljóna dala hagnaði á þriðja fjórðungi ársins. Þetta svarar til 387 milljóna íslenskra króna á tímabilinu samanborið við rúmar 274 milljónir króna í hagnað á sama tíma í fyrra.

Í tilkynningu frá Össuri til Kauphallar Íslands kemur fram að sala á fjórðungnum nam 62,8 milljónum dala eða 4,5 milljörðum króna, sem er 41 prósents hækkun á milli ára.

Þá var hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) 12,1 milljón dalir eða 867 milljónir íslenskra króna, sem er 17 prósenta aukning frá þriðja ársfjórðungi í fyrra.

Haft er eftir Jóni Sigurðssyn, forstjóra Össurar, að fyrirtækið sé bjartsýnt um að ná markmiðum sínum fyrir árið en afkoma þriðja ársfjórðungs er rétt undir væntingum stjórnenda. „Sala á stoðtækjum í Bandaríkjunum heldur áfram að vaxa á meðan pro forma sala á spelkum og stuðningsvörum er í takt við vöxt markaðarins og undir markmiðum okkar til lengri tíma litið. Samþætting og endurskipulagning í kjölfar fyrirtækjakaupa gengur samkvæmt áætlun. Á fjórðungnum lokuðum við starfsstöð okkar í Bothell, Washington og lögðum mikla áherslu á endurskipulagningu á dreifingarkerfi okkar í Bandaríkjunum, sem hefur tímabundið neikvæð áhrif á söluna í spelkum og stuðningsvörum á þessu svæði. Enn eru vissir erfiðleikar í Evrópu, en við sjáum að við erum á réttri leið," segir hann.

Tilkynning Össurar hf. til Kauphallar Íslands






Fleiri fréttir

Sjá meira


×