Viðskipti innlent

Avion Group selur eignir fyrir 34 milljarða

Avion Group hefur samþykkt tilboð frá hópi fjárfesta upp á 450 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 30,6 milljarða íslenskra króna, í XL Leisure Group, leiguflugs- og ferðaþjónustuhluta Avion.

Bókfærður hagnaður af sölunni fyrir skatta er 7,3 milljarðar króna eða 107 milljónir bandaríkjadala.

Stjórn Avion Group hefur sömuleiðis samþykkt tilboð frá fjárfestum í 51 prósent bréfa í Avion Aircraft Trading fyrir 3,5 milljarða krónur.

Kaupendur eru Hafþór Hafsteinsson stjórnarformaður Avion Aircraft Trading og Arngrímur Jóhannsson stofnandi Air Atlanta Icelandic ásamt lykilstjórnendum. Samhliða kaupunum lætur Hafþór Hafsteinsson af störfum sem forstjóri flugþjónustusviðs Avion Group.

Í tilkynningu frá Avion Group kemur fram að 49 prósent bréfa í Avion Aircraft Trading verði áfram í eigu Avion Group og er eignarhluturinn bókfærður á um 3 milljónir bandaríkjadala eða um 200 milljónir króna. Bókfærður hagnaður af sölunni fyrir skatta er 47 milljónir dala eða 3,2 milljarðar króna.

Innan XL Leisure Group er Excel Airways Group í Bretlandi, Star Airlines í Frakklandi og nýstofnað félag í Þýskalandi ásamt fjölda dótturfélaga í sömu löndum. Afkomueiningin er seld í heild sinni. Kaupendur eru hópur fjárfesta og stjórnenda XL Leisure Group sem Phillip Wyatt, forstjóri félagsins leiðir.

Þá mun fjármögnun kaupanna, sem tryggð er með veði í XL Leisure Group, vera að fullu lokið og miðast viðskiptin við morgundaginn, 31. október.

Haft er eftir Magnúsi Þorsteinssyni, stjórnarformanni Avion Group, að félagið sé stöðugt að leita að fjárfestingatækifærum og sé jafnframt tilbúið að selja ef um er að ræða tilboð sem það telji hagstætt fyrir hluthafa félagsins. „Við erum að innleysa verulegan hagnað á stuttum tíma með sölunni á XL Leisure Group og Avion Aircraft Trading," segir Magnús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×