Til átaka kom milli lögreglu í Chile og námsmanna sem voru að mótmæla breytingum á löggjöf um menntamál í höfuðborginni, Santiago, í dag. Rúmlega hundrað mótmælendur voru handteknir eftir að grjóthnullungum rigndi yfir lögreglumenn sem svöruðu með því að sprauta vatni á mótmælendur.
Löggjöfinni var mótmælt kröftuglega í maí og júní og höfðu stjórnvöld komið til móts við flestar kröfur stúdenta, þar á meðal að hætta við að krefjast greiðslu vegna inntökuprófa í háskóla.
Námsmenn segjast ósáttir við hve seint gangi að koma lofuðum breytingum Michelle Bachelets, forseta Chile, í gegn. Yasna Provoste, menntamálaráðherra, segir ekkert réttlæta mótmælin í dag.
Námsmenn mættu ekki í tíma í dag og gengu fylktu liði að menntamálaráðuneytinu í höfuðborginni. Lögregla reyndi að stöðva ferð þeirra en þá svöruðu námsmenn með grjótkasti auk þess sem þeir köstuðu málningasprengjum að bílum lögreglumanna.
Felipe Harboe, vara-innanríkisráðherra, sagði í samtali við AP-fréttastofuna að 114 námsmenn hefðu verið handteknir.
Færri námsmenn tóku þátt í mótmælunum í dag en í sumar þegar allt að 700 þúsund stúdentar gengu fylktu liði um götur borga í Chile.