Fótbolti

Ferguson hrósar fyrirliðanum unga

Wayne Rooney er óðum að finna sitt gamla form með Manchester United, þó mörkin láti enn á sér standa
Wayne Rooney er óðum að finna sitt gamla form með Manchester United, þó mörkin láti enn á sér standa NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson hlóð Wayne Rooney hrósi eftir 3-0 sigur Manchester United á FC Kaupmannahöfn í Meistaradeildinni í kvöld, en framherjinn ungi tók við fyrirliðabandinu í fyrsta sinn í fjarveru þeirra Ryan Giggs og Rio Ferdinand.

Rooney var ekki á skotskónum í kvöld frekar en fyrri daginn, en var sífellt ógnandi og skapaði fjölda færa fyrir félaga sína. "Hann varð líklega yngsti fyrirliði í sögu félagsins í kvöld. Ég leit í kring um mig í búningsherberginu fyrir leikinn og sá að Edwin van der Sar var þegar kominn út á völl og þó ég hefði eflaust átt að koma bandinu til hans, ákvað ég að færa bandið manni sem það myndi koma til góða. Rooney var frábær og er kominn í sitt gamla form á ný eins og við vissum að hann ætti eftir að gera.

Ég vildi ekki láta Paul Scholes fá fyrirliðabandið á ný, því hann hefur beðist undan því, en ég man að Rooney gerði grín að Roy Keane í fyrra og kallaði hann þá útbrunninn og sagðist vilja taka við fyrirliðabandinu af honum. Þetta fór nú ekki sérstaklega vel í Keane man ég, en þetta var nú sagt í gríni," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×