Fótbolti

Liðið er búið að missa sinn besta leikmann

Eiður og Ronaldinho verða í eldlínunni á Stamford Bridge á miðvikudagskvöldið - allt í beinni á Sýn
Eiður og Ronaldinho verða í eldlínunni á Stamford Bridge á miðvikudagskvöldið - allt í beinni á Sýn NordicPhotos/GettyImages

Eiður Smári Guðjohnsen segir að hans menn í Barcelona verði að skora fyrsta markið í leiknum gegn Chelsea í Meistaradeildinni á miðvikudaginn, því það sé mjög erfitt að lenda undir gegn jafn vel skipulögðu liði og gömlu félögum hans í Chelsea. Hann segist líka vita af hverju Chelsea hefur ekki byrjað mjög vel í ensku úrvalsdeildinni í haust.

"Chelsea er sterkt og vel skipulagt lið og því er mjög hættulegt að lenda undir í svona leik. Við verðum því að vera mjög einbeittir allan tímann, því þeir refsa okkur umsvifalaust ef við gerum mistök," sagði Eiður í samtali við Reuters fréttastofuna á blaðamannafundi í dag. Hann segist ekki undirbúa sig sérstaklega fyrir leikinn gegn sínum gömlu félögum.

"Ég veit hvað ég get á knattspyrnuvellinum og það vita allir hjá Chelsea líka þar sem ég spilaði 250 leiki fyrir félagið. Ég hlakka mikið til leiksins, en ég hef ekkert að sanna fyrir neinum nema sjálfum mér þegar í leikinn er komið," sagði Eiður og var að lokum spurður hvort hann hefði kenningu um það af hverju Englandsmeistararnir hefðu hikstað í upphafi leiktíðar.

"Af því liðið er búið að missa sinn besta leikmann," sagði Eiður glaðbeittur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×