Erlent

Hundrað sjóliðar dóu í sprengjutilræði

Um hundrað sjóliðar úr srí-lankska hernum biðu bana í bílsprengjuárás Tamíl-tígra í morgun. Óttast er að tilræðið spilli verulega fyrir friðarviðræðum ríkisstjórnarinnar og tígranna sem fram eiga að fara í lok mánaðarins.

Árásin átti sér stað um 190 km norðaustur af höfuðborginni Colombo en svo virðist sem flutningabíl hlöðnum sprengiefni hafi verið ekið upp að rútum fullum af sjóliðum úr srílankska hernum á leið heim í frí. Að minnsta kosti 99 létust í sprengingunni og á annað hundrað slösuðust, þar á meðal einhverjir óbreyttir borgarar. Allt bendir til að uppreisnarmenn úr hópi tamíl-tígranna svonefndu hafi verið þarna að verki en leiðtogar samtakanna hafa hvorki viljað neita því né játa, aðeins að árásin hafi verið réttlætanleg.

Átök milli tígranna og stjórnarhersins hafa farið harðnandi að undanförnu og vopnahléið sem samið var um árið 2002 virðist því farið út um þúfur. Friðarviðræður eiga að fara fram í Genf í lok mánaðarins en árásin í morgun varð tæpast til að auka mönnum bjartsýni um lyktir þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×