Innlent

Linnulaus hernaður gegn jöfnuði

Ríkisstjórnin hefur verið í linnulausum hernaði gegn jöfnuði og ójöfnuður hefur aukist á Íslandi á síðustu árum; þetta sagði formaður Samfylkingarinnar á Alþingi í dag. Forsætisráðherra segist hins vegar ekki vera andvaka þótt einhverjir aðilar hafi hagnast á viðskiptum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, óskaði eftir utandagskrár umræðum á Alþingi í dag um vaxandi ójöfnuð á Íslandi.

Ingibjörg sagði að á síðustliðnum áratug, í tíð ríkisstjórnarinnar, hafi staðið yfir linnulaus hernaður gegn jöfnuði á Íslandi. Á heimasíðu ríkisskattstjóra komi fram að Ísland sé að færast úr hópi þeirra ríkja þar sem jöfnuður sé mestur í hóp þeirra ríkja þar sem jöfnuður sé minnstur.

Ingibjörg sagði þúsundir fjölskyldna hér á landi með þrjár til þrjár og hálfa milljón króna í árstekjur og þær greiddu af þeim 23% skatt. Hins vegar væru hundruð fjölskyldna með tugir milljóna króna á mánuði í tekjur og greiddu þær aðeins 15% skatt. Þessi síðarnefndi hópur hafi umtalsverðar fjármagnstekjur. Um 1% hjóna á Íslandi eða 600 hjón hafi 60% allra fjármagnstekna hér á landi. Þessi hópur hafi 16,5 milljón króna í launatekjur en 95 milljónir króna í fjármagnstekjur.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði tiltekinn hóp hér á landi hafa efnast verulega vegna breyttrar aðstæðna og sífellt fleiri hafi hagnast á erlendum viðskiptum. Sumir af þeim greiði þó ekki alla sína skatta á Íslandi en það sé keppikefli að þeir borgi sín gjöld hér á landi.

Geir sagði hækkun á kaupmætti vera nokkuð jafna ef sleppt væri þeim 5% sem væru í tekjuhæsta hópnum. Hann missi þó ekki svefn þó einhverjir aðilar hafi hagnast á viðskiptum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×