Forseti Kasakstans, Nursultan Nazarbayev er í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum. Heimsóknin hefur vakið meiri athygli en venja er, vegna kvikmyndar breska leikarans Sacha Baron Cohen - sem er betur þekktur sem Ali G - um persónuna Borat, sem á að vera frá Kasakstan. Myndin og persóna Cohens hefur vakið misjöfn viðbrögð, enda er Cohen þekktur fyrir að skafa ekki utan af hlutunum.
Cohen byrjaði fyrir nokkrum árum á að gera einstaka atriði í hlutverki Borats. Þessi atriði nutu þvílíkra vinsælda að nú hefur hann gert heila kvikmynd um ævintýri Kasakkans Borats, sem á að gerast í heimalandi hans Kasakstan. Stjórnvöld í hinu raunverulega Kasakstan eru þó ekki mjög hrifin af Borat og þeirri mynd sem hann dregur upp af landinu, enda ekki tilgangurinn að gefa raunsanna lýsingu af Kasakstan.
Stjórnvöld í Kasakstan fóru sem sagt í heilmikla herferð til að reyna að leiðrétta þá mynd sem þau óttuðust að almenningur í öðrum löndum gæti fengið af landinu. Áhyggjurnar hafa þó aðeins minnkað og stjórnvöld eru farin að tala um kaldhæðni og húmor án þess þó að samþykkja að það eigi við. En Borat ætlar ekki að láta einhverja raunverulega stjórnmálamenn þvælast fyrir sér.
„Það er maður að nafni Roman Vassilenko sem heldur því fram að hann sé upplýsingafulltrúi Kasakstans. Vinsamlegast hlustið ekki á hann: hann er úsbeskur svikahrappur, sem fulltrúar okkar eru að reyna að elta uppi. Enn fremur vil ég koma því á framfæri fyrir hönd ríkisstjórnar minnar að ef Úsbekistan hættir ekki þessum árásum, þá útilokum við ekki hernaðaríhlutun," segir Borat.
Að þeim orðum sögðum reyndi Borat að komast inn í Hvíta húsið til að bjóða Bush forseta á frumsýningu myndarinnar, sem verður í nóvember.