Sport

Ég er á hátindi ferilsins

Andy Johnson var frábær í dag.
Andy Johnson var frábær í dag. Getty Images

Andy Johnson, framherji Everton, sagði eftir sigurleikinn í dag að hann væri á hátindi ferils síns sem knattspyrnumaður.

Sjónvarpsmaður BBC í Englandi sagði við Johnson eftir leikinn að fyrst hann væri í landsliðinu, í sínu besta formi og nýbúinn að skora tvisvar í einhverjum mesta grannaslag enska boltans, hlyti hann að standa framar á ferlinum en hann hafi nokkurn tíma gert. Johnson tók undir það.

"Ég held að ég geti alveg tekið undir það að ég sé á hápunkti ferilsins. Þetta gerist varla mikið betra," sagði Johnson en bætti hógvær við: "Það er auðvitað frábært að skora tvisvar en stigin þrjú eru aðalatriðið. "Liðið spilaði mjög vel og þegar maður er framherji með svona góða fótboltamenn fyrir aftan sig er ekki erfitt að koma sér í færin. Það er mitt að nýta þau og það tókst í dag."

David Moyes, stjóri Everton, var einnig í skýjunum og sagði Johnson vera að standa undir væntingum og gott betur. "Þetta var frábær frammistaða og Andy er að gera það sem hann gerir best. Við fengum hann hingað til að skora og það er einmitt það sem hann er að gera."

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, var hins vegar þungur á brún. "Við gerðum alltof mörg mistök í vörninni og okkur var einfaldlega refsað."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×