Sport

West Ham getur orðið risafélag

NordicPhotos/GettyImages

Kia Joorabchian, eigandi Media Sports Investment sem seldi Argentínumennina tvo til West Ham á dögunum, segir að ekkert sé því til fyrirstöðu að félagið geti orðið stærra en Chelsea á heimsvísu. Joorabchian hefur verið orðaður við yfirtöku í West Ham.

"Ég trúi því að West Ham geti í framtíðinni orðið stærra félag á heimsvísu en Chelsea og jafnvel stærra en Manchester United," sagði Íraninn í samtali við News of the World.

"Ég tel að Alan Pardew sé knattspyrnustjóri sem geti leitt liðið inn á nýjar brautir og komið því í baráttuna um enska meistaratitilinn og í meistaradeildinni. Manchester United er auðvitað nokkuð sérstakt félag. Það er risastórt á heimsvísu eins og Real Madrid, en af hverju ætti West Ham ekki að geta orðið stórt félag um allan heim? Félagið á stuðninsmenn víða og á sér að mínu mati merkari sögu en Chelsea. Þegar West Ham fær svo til sín leikmenn eins og Mascherano og Teves, er engin spurning í mínum huga að það getur orðið stórt í framtíðinni," sagði Joorabchian.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×