Innlent

Lögin ekki í lagi

Menntamálaráðherra ætlar að beita sér fyrir breytingu á lögum um rétt barna af erlendum uppruna til skólavistar. Skólayfirvöld í Reykjavík hafa þurft að brjóta lögin til að uppfylla barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna.

Samkvæmt íslenskum lögum má ekki veita grunnskólabörnum af erlendum uppruna skólavist nema þau hafi hér dvalarleyfi og íslenska kennitölu. Átta börn á grunnskólaaldri fá ekki inni í grunnskólanum á Ísafirði vegna þessa, jafnvel þó að þau eigi rétt á skólavist samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa skólayfirvöld í Reykjavík hins vegar kosið að brjóta lögin, að því gefnu að börnin hafi læknisvottorð, og þar með staðið við barnasáttmálann.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, telur það ekki ganga upp að íslensk lög komi í veg fyrir rétt barna til þess að ganga í grunnskóla, þar sem þau eru stödd hverju sinni. Hún segir að réttur barnanna verði að vera í fyrirrúmi og að hún muni beina því til nefndar um grunnskólamál að fara vandlega yfir málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×