Sport

Fulham vann Chelsea

Þetta er ánægður maður. Chris Coleman, knattspyrnustjóri Fulham andaði léttar eftir að dómarinn flautaði til leiksloka. Fulham eru nú í þægilegri fjarlægð frá fallsvæðinu.
Þetta er ánægður maður. Chris Coleman, knattspyrnustjóri Fulham andaði léttar eftir að dómarinn flautaði til leiksloka. Fulham eru nú í þægilegri fjarlægð frá fallsvæðinu.

Fulham náði með elju og mikilli fyrirhöfn að landa 1-0 heimasigri á Englandsmeisturum Chelsea nú undir kvöldið með marki Luis Boa Morte á 17. mínútu. Eiður Smári Guðjohnsen var ekki í leikmannahópi Chelsea en Heiðar Helguson sat á varamannabekk Fulham og kom inn á þegar 70 mínútur voru liðnar af leiknum. Þetta er þriðja tap Chelsea á tímabilinu.

Jose Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea trompaðist á hliðarlínunni eftir að Fulham komst yfir og gerði tvær breytingar á liði sínu strax á 26. mínútu. Hann tók þá Joe Cole og Shaun Wright-Phillips af velli og setti Damien Duff og Didier Drogba inn á í þeirra stað. Mourinho kláraði svo sína þriðju og síðustu skiptingu strax í hálfleik þegar hann tók Robert Huth af velli fyrir Ricardo Carvalho.

Mótlætið fór vægast sagt illa í leikmenn Chelsea því á 90. mínútu var William Gallas rekinn af velli með rauða spjaldið fyrir ljóta tæklingu á Heiðari Helgusyni. Gallas ætlaði aldrei að fara af velli vegna ósættis við dóm línuvarðarins sem var í stóru hlutverki í leiknum. Hann dæmdi einnig af mark sem Didier Drogba skoraði í seinni hálfleik. Sá dómur reyndist á rökum reistur en í endursýningu í sjónvarpi mátti sjá að Drogba handlék boltann til að leggja hann fyrir sig.

Þessi úrslit þýða að Chelsea hefur nú 12 stiga forskot á toppi deildarinnar á undan Man Utd sem á leik til góða en Fulham komst upp í 14. sæti með þessum óvænta sigri og er þar með 35 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×