Sport

Gengur vel hjá Arnari og félögum í Twente

Arnar í leik með Lokeren.
Arnar í leik með Lokeren.

Arnar Þór Viðarsson lék allan leikinn með Twente sem lagði Heracles Almelo, 2-0 í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Twente er á fljúgandi ferð í deildinni og hefur nú ekki tapað í 6 leikjum í röð. Twente færist upp tölfuna þessa dagana, er nú búið að fjarlægjast fallsvæðið og er í 9. sæti deildarinnar með 38 stig, fjórtán stigum frá fallsæti í þessari 18 liða deild.

Ajax burstaði Sparta, 6-0 þar sem hinn 22 ára sjóðheiti sóknarmaður, Klaas-Jan Huntelaar skoraði þrennu en hann hefur nú skorað 20 mörk fyrir Ajax á tímabilinu. Fjórir leikir fóru fram í hollensku deildinni í dag;

Feyenoord 3 - 0 FC Utrecht

Ajax Amsterdam 6 - 0 Sparta Rotterdam

Twente Enschede 2 - 0 Heracles Almelo

RKC Waalwijk 3 - 0 Den Haag

Grétar Rafn Steinsson kom hins vegar ekki við sögu hjá AZ Alkmaar, sem vann Nijmegen 2-0 á föstudagskvöldið. Hann vermdi varamannabekkinn allan leikinn.

PSV Eindhoven er efst í deildinni með 69 stig eftir 27 leiki. Feyenoord er í 2. sæti með 62 stig og AZ Alkmaar í 3. sæti með 58 stig og Ajax í 4. sæti með 49 stig. Twente er eins og áður segir í 9. sæti með 38 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×