Skoðun

Einstök menntasókn – Ranghugmyndir menntamálaráðherra.

Garðar Stefánsson, lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs HÍ, svarar grein Þorgaerðar Katrínar.

Í Fréttablaðinu hinn 29. október birtist grein eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra um hlutfall Íslendinga á aldrinum 20-40 ára sem stunda háskólanám. Þar hrósaði hún ítrekað þeim árangri sem íslensk stjórnvöld hafa náð í framlagi til menntamála, samanborið við hin Norðurlöndin.

Ég vitna í grein Þorgerðar: „Þegar norrænu hagtölurnar eru skoðaðar sést einnig að hlutfallslega margir Íslendingar stunda nám utan heimalandsins og íslensku námslánin eru hærri en gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndunum."

Þorgerður Katrín bendir réttilega á að námslán íslenskra námsmanna eru hærri en gengur og gerist á Norðurlöndunum. Aftur á móti hafa „lánasjóðir" Norðurlandanna blandað tilfærslukerfi, þ.e. styrkja- og lánakerfi. Á Norðurlöndunum vega því námslán aðeins 1/3 af tilfærslum stjórnvalda og 2/3 er styrkur, sem námsmenn þurfa ekki að greiða til baka.

Íslenskir námsmenn fá 87.400 krónur á mánuði, miðað við einstakling í leiguhúsnæði. Það má einnig benda á að námslánin skerðast um 12% af tekjum ársins á undan. Ef við berum saman Danmörku og Ísland fá námsmenn þar í landi u.þ.b. 29.000 krónur á mánuði í námslán og styrk upp á 57.000 krónur. Samtals 86.000 krónur á mánuði.

Svipað náms- og styrkjakerfi er til staðar á hinum Norðurlöndunum. Samkvæmt þessu, eins og menntamálaráðherra benti á, veita Íslendingar hæstu námslánin á Norðurlöndunum enda vega styrkirnir þar mun meira.

Verðlagsástand og verðbólga

Verðlagseftirlit ASÍ framkvæmdi könnun 9. og 10.maí síðastliðinn á vöruverði undirstöðumatvara í höfuðborgum Norðurlandanna. Í matarkörfunni voru vörur á borð við smjör, ost, og aðrar mjólkurvörur, kjöt, brauð, grænmeti, ávexti og egg. Við Íslendingar erum þar Norðurlandameistarar í háu verði á matvöru og kostar matarkarfan hér ríflega 4.787 krónur, Noregur fylgir fast á eftir með 4.613 krónur og í endann fylgja Danmörk, Finnland og Svíþjóð með matarkörfu á bilinu 2.500-3.100 krónur.

Samkvæmt bæklingi Hagstofunnar „Ísland í tölum 2005-2006" vegur kostnaður vegna matar og húsnæðis hæst af neysluútgjöldum heimilanna, eða um 40%. Ég tek það þó fram að námsmenn eru ekki flokkaðir sem heimili og þurfa því að standa straum af hærri kostnaði vegna sömu útgjaldaliða.

Íslendingar eru ekki aðeins Norðurlandameistarar í matvöruverði heldur erum við heimsmeistarar. Við erum einnig eina landið í heiminum sem státar af því að hafa verðtryggð námslán.

Námslán á Íslandi bera 1% vexti sem eru í rauninni 8,2% vextir miðað við núverandi verðbólgustig, lánskerfið á Norðurlöndum býður upp á óverðtryggð námslán með 2,5%-3,5% raunvöxtum.

Því miður eru framfærslulánin og lánskjörin ekki nógu góð ef tekið er tillit til verðlagsástands og borið saman við sambærileg láns- og styrkjakerfi á Norðurlöndunum. Námslánin eru því ekki á viðunandi kjörum fyrir námsmenn.

Á Íslandi er raunveruleg framfærsla námsmanna ekki mæld og hefur kröfum námsmannahreyfinganna um að slík vinna verði hafin verið tafin af fulltrúum stjórnvalda í stjórn LÍN. Miðað við framfærslugrunn LÍN duga námslánin ekki fyrir raunverulegri framfærslu námsmanna. Námslánin eru okkar laun fyrir okkar vinnu. Er nám ekki annars 100% vinna?

Ég hvet menntamálaráðherra til þess að beita sér í framfærslumálum námsmanna, og styðja þannig við menntun Íslendinga, grunnstoð þekkingarþjóðfélagsins.

Höfundur er lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs HÍ.




Skoðun

Sjá meira


×