Íslenski boltinn

Valur búinn að kaupa Helga Sigurðsson

Helgi sést hér í leik með Fram gegn Leikni í sumar.
Helgi sést hér í leik með Fram gegn Leikni í sumar. fréttablaðið/valli

Lausn fékkst í deilu Helga Sigurðssonar og Fram í gær þegar Valur keypti Helga af Safamýrarliðinu. Kaupverðið er talið vera á milli 4-5 milljónir króna. Samkvæmt heimasíðu Fram tókst samkomulag á milli liðanna í vikunni og Brynjar Jóhannesson, framkvæmdastjóri rekstrarfélags meistaraflokks Fram, virðist því hafa verið að segja ósatt í samtali við Fréttablaðið á miðvikudagskvöld þegar hann sagði ekkert tilboð vera komið frá Val.



Helgi fór á dögunum fram á að yfirgefa félagið og kom sú bón eins og þruma úr heiðskíru lofti. Fram neitaði bón Helga í fyrstu og sagði að hann myndi frekar sitja upp í stúku en spila með öðru félagi. Hann fengi að standa við gerðan samning sem átti að renna út eftir eitt ár.

„Það er gott að fá lausn í málið því þetta er búinn að vera erfiður tími," sagði Helgi í gærkvöldi en hann mun skrifa undir þriggja ára samning við Val. „Það var stórt skref að ákveða að yfirgefa Fram og það var erfið ákvörðun. Ég vil ekkert ræða sérstaklega af hverju ég vildi fara. Ég hef útskýrt það fyrir stjórninni og það er nóg finnst mér."

Talað var um að Helgi hefði greitt hluta kaupverðsins sjálfur en hann hló að sögunni og sagðist ekki svara slíkum sögusögnum.

- hbg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×