Handbolti

Góðir menn eru keyptir og þeir eiga að sýna það

Birkir Ívar Guðmundsson
Birkir Ívar Guðmundsson

Birkir Ívar Guðmundssson, landsliðsmarkvörður Íslands í handbolta, kann vel við sig hjá þýska liðinu Lübbecke. Liðið hefur þó ekki farið vel af stað í þýsku deildinni í vetur og er í fallsæti eins og staðan er í dag.



„Þetta eru auðvitað töluverð viðbrigði. Maður er vanur að vinna átta tíma vinnudag og fara síðan á æfingar og spila. Þetta er kannski aðeins rólegra hérna en kannski meira álag í handboltanum og meiri pressa,“ sagði Birkir Ívar þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gær. Birkir Ívar sagði að það væri ekki margt sem hefði komið sér á óvart í atvinnumennskunni í Þýskalandi.



„Það hefur kannski komið mér mest á óvart hversu vel liðin eru mönnuð og þá á ég við öll liðin. Maður vissi að þessi topplið væru mjög vel mönnuð en í rauninni eru öll liðin í deildinni vel mönnuð.“ Lübbecke er í næstneðsta sæti deildarinnar og hefur aðeins unnið einn leik af þeim tíu sem búnir eru á tímabilinu.



Birkir Ívar deilir markvarðarstöðunni með þýska markverðinum Torsten Friedrich. „Ég gerði mér alltaf grein fyrir því að tæki tíma fyrir mig að komast inn í deildina. Ég var búinn að gera ákveðið plan um að gefa mér smá tíma til að komast inn í spilamennskuna hérna og sá tímapunktur er að fara að koma. Ég er nokkuð ánægður með tvo síðustu leiki hjá mér þannig að þetta er allt á uppleið. Við skiptum þessu á milli okkar en markvörðurinn sem er með mér hefur spilað ívið meira en ég.“



Birkir Ívar sagði að ekki væri lagt meiri áhersla á markmannsþjálfun þarna úti en hér heima. „Hérna er það bara þannig að menn eru keyptir af því að þeir geta eitthvað og þeir eiga bara að sýna það. Menn eiga bara að kunna sitt fag.“



HM í handbolta er í Þýskalandi í janúar og Birkir Ívar verður væntanlega í eldlínunni þar. „Við Íslendingar erum með vel mannað lið í öllum stöðum og erum með góðan þjálfara. Við erum líka með ungt lið sem er samt með reynslu. Ef við náum að halda lykilmönnum eins og Óla Stefáns ómeiddum, þá eigum við alveg að geta eitthvað á þessu móti,“ sagði Birkir Ívar Guðmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×