Skoðun

Fjöldi ellilífeyrisþega lifa vart við mannsæmandi lífskjör

Blekkingar stjórnvalda í skattamálum sýna virðingarleysi og vanmat á skilningi og þekkingu almennings.

Staðreynd er að skattbyrði flestra heimila í landinu jókst á árunum 1995-2005. Skattbyrði lág-tekjufólks, þ.á m. ellilífeyrisþega, öryrkja og láglaunafólks á vinnumarkaði svo sem bændur, einstæðar mæður og húsmæður jókst mest, en minnkaði hjá fámennum hópi hátekjufólks. Að vísu hafa stjórnvöld lækkað álagningu skatta úr 41,9 prósentum í 36,72 prósent á árunum 1995 til 2006 og hamra stöðugt á þessari takmörkuðu skýringu í öllum svargreinum. Stjórnvöld ¿gleyma¿ að geta þess að samtímis var skattfrjálsi hluti teknanna takmarkaður með því að hækka ekki skattleysismörkin frá upptöku staðgreiðslu með verðlaginu eða þá sem réttast væri með launavísitölu. Smávegis hækkun á skattleysismörkun í ASÍ samningum í sumar úr 79.000 kr. í 90.000 fyrir árið 2007, dugir skammt.

Skattleysismörk ættu nú að vera um 137.000 hefðu þau fylgt launavísitölu. Stjórnvöld telja að almenningur greiði meiri skatt því að tekjur hafi hækkað. Með þessari fullyrðingu gera stjórnvöld sig sek um villandi málflutning, beinlínis fölsun staðreynda. Ljóst er að þeir urðu fyrir mestri aukningu skattbyrðarinnar sem búa við minnsta hækkun tekna, þ.e. að sífellt lægri rauntekjur eru skattlagðar af fullum þunga. Þetta er ekki einungis skoðun okkar í LEB heldur margítrekaðar skoðanir prófessora og margra fræðimanna í viðskipta- og hagfræði við háskóla landsins. (Sjá töflu).

Margt bendir til þess að grunnhyggnar skýringar stjórnvalda í þessum málum muni koma þeim í koll hafandi í huga að almenningur á Íslandi hefur verið vel læs frá miðri 18. öld.

Í næstu grein verður skýrt frá því hvernig skattstefna stjórnvalda og breyting á lögum frá 1995 sem ollu lægri greiðslum almannatrygginga hefur stóraukið launamismun í landinu sl. áratug og sorfið mjög að högum þeirra er lægstar tekjur hafa.

Ólafur er formaður LEB og Einar hagfræðingur LEB.




Skoðun

Sjá meira


×