Innlent

Vinna ekki hluti af námi

Krakkar að leik Nemar við KHÍ fá ekki einingar fyrir að vinna á frístundaheimilum.
Krakkar að leik Nemar við KHÍ fá ekki einingar fyrir að vinna á frístundaheimilum.

Ekki er fyrirhugað að bjóða nemendum KHÍ vinnu á frístundaheimilum í skiptum fyrir einingar, að sögn Guðmundar Birgissonar, deildarforseta grunndeildar Kennaraháskóla Íslands. Í Fréttablaðinu í gær var sagt frá því að sú hugmynd hefði komið upp að nemendur KHÍ fengju einingar fyrir að vinna á frístundaheimilum en Guðmundur segir þá hugmynd ekki hafa komið inn á sitt borð.

Enn vantar sextíu starfsmenn á frístundaheimili í Reykjavík og yfir átta hundruð nemendur bíða eftir plássi.

Guðmundur segir að það væru helst nemendur í tómstunda- og félagsmálafræðum við skólann sem gætu nýst á frístundaheimilin en þeir kæmu aldrei í staðinn fyrir aðra starfsmenn.

Guðmundur vildi ekkert útiloka um það hvort vinna á frístundaheimilum yrði metin til eininga í framtíðinni en sagði það þurfa lengri undirbúning. „Hluti náms í KHÍ er á vettvangi en það er alltaf hugsað út frá markmiðum nemendanna. Á starfsnámsbrautum sumra skóla er vinna hluti af námi nemenda en það fyrirkomulag er ekki til staðar við KHÍ eins og staðan er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×