Lífið

Heimildamynd um kjarnakonur

 

Kjarnakonur heitir heimildamynd eftir Gísla Sigurgeirsson, sem sýnd verður í Sjónvarpinu næstkomandi mánudag.

 

Í myndinni er fjallað um hvunndagshetjurnar, Kristínu Ólafsdóttur og Jóhönnu Þóri Jónsdóttur. Þær bjuggu lengst af einar í gömlu húsi í Fjörunni á Akureyri, Aðalstræti 32. Gísli Sigurgeirsson heimsótti þær ásamt kvikmyndatökumönnum með fárra ára millibili, síðast þegar báðar höfðu náð hundrað ára aldri. Þær létu aldurinn ekkert á sig fá, sáu um sig sjálfar, bökuðu brauðin og þvoðu þvotta.

 

Önnur þeirra hafði reyndar farið á elliheimili, en undi þar ekki lengi, fór aftur heim í Aðalstrætið. Þær sögðu gott skap og góða hreyfingu við daglegt amstur hægja á elli kerlingu. Lengi vel dugði þeim þetta ráð, en enginn getur stöðvað tímans hjól.

Kristín er látin, en Jóhanna verður 106 ára í febrúar og er elsti norðlendingurinn og þriðji elsti íslendingurinn. "Þær stöllur höfðu margt til málanna að leggja, höfðu ákveðnar skoðanir og voru um fram allt skemmtilegar; það var mannbætandi að fá að kynnast þeim", segir Gísli Sigurgeirsson, fréttamaður, sem gerði myndina.

Myndatökumenn ásamt honum voru Trausti G. Haldórsson, Björn Sigmundsson og Björgvin Kolbeinsson.

Myndin um kjarnakonur Gísla er á dagskrá Sjónvarpsins kl. 20:45 á mánudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×