Sport

Æfur út í Barcelona

Arsene Wenger lætur Barcelona heyra það
Arsene Wenger lætur Barcelona heyra það NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er æfur út í forráðamenn Barcelona fyrir að lýsa nýverið yfir opinberlega að félagið ætlaði sér að ná í franska framherjann Thierry Henry frá Arsenal og segir það vanvirðingu við félagið.

Joan Laporta, forseti Barcelona hélt því fram í vikunni að Barcelona ætlaði að tjalda öllu til að næla í Thierry Henry, sem enn hefur ekki viljað ræða framlengingu á samningi sínum við enska félagið.

"Maðurinn getur ekki komið með svona yfirlýsingar og ég mun reyna að gera eitthvað í málinu, þetta er bæði ósanngjarnt og svo grefur þetta undan okkur. Ef þessir menn vilja fá Henry í sínar raðir, verða þeir að hringja í okkur, því hann á enn 18 mánuði eftir af samningi sínum við Arsenal," sagði Wenger reiður í samtali við BBC í dag og sagði aðferðir Barcelona til að lýsa yfir áhuga sínum á leikmanninum bera vott um virðingarleysi.

"Að mínu mati eiga stjórnarmenn félaga, hvort sem það er Doncaster eða Barcelona, að sýna knattspyrnunni virðingu og fara eftir settum reglum. Ég hef engar áhyggjur af Thierry Henry og framtíð hans, en mér þykir þetta mál koma neikvæðri umfjöllun af stað um Arsenal og við höfum ekkert með slíkt að gera," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×