Innlent

Stefna á framboð í sex sveitarfélögum

Frjálslyndir stefna á framboð í minnst sex sveitarfélögum næsta vor. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum buðu þeir fram lista í þremur sveitarfélögum og komu manni í bæjar- eða borgarstjórn í tveimur þeirra.

Forystumenn Frjálslynda flokksins funduðu með hópi fólks í Vestmannaeyjum á dögunum sem íhugar að bjóða fram nýtt afl við sveitarstjórnarkosningar þar. Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, segir flokkinn hafa fullan hug á að bjóða fram í Eyjum en eftir eigi að koma í ljós hvort það verði með þeim Eyjamönnum sem rætt var við á dögunum eða með öðrum hætti. Magnús Þór segir að jafnframt sé unnið að framboðsmálum í Grindavík, Reykjanesbæ, Reykjavík, á Akranesi, Ísafirði og í Skagafirði auk Vestmannaeyja. Í sveitarstjórnarkosningum árið 2002 komu Frjálslyndir mönnum að í Reykjavík og á Ísafirði en hlutu ekki nægilegt fylgi í Skagafirði til að koma manni að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×