Innlent

Smíða vélmenni

Marel að innan.
Marel að innan. MYND/GVA

Hópur barna á aldrinum tíu til sextán ára láta í dag reyna á hugvit sitt og hæfileikann til þess að vinna saman. Þessir íslensku grunnskólanemar ætla í dag að keppa í alþjóðlegri hönnunarkeppni þar sem þau smíða vélmenni úr legókubbum, forrita það og láta það síðan leysa ýmsar erfiðar þrautir.

Tuttugu lið af öllu landinu taka þátt í keppninni en þetta er í fyrsta sinn sem alþjóðlega hönnunarkeppnin First Lego Leagu fer fram á Íslandi. Rúmlega fjögur hundruð lið á Norðurlöndum í tuttugu og tveimur borgum taka þátt í keppninni. Sigurliði hér á landi fær rétt til þess að keppa á úrslitamóti í Noregi í desember. Þemað í ár er hafið og það sem tengist því. Það mun reyna á samvinnu barnanna, úrræðasemi og ímyndunarafl þegar þau takast á við það verkefni að smíða vélmennið og láta það leysa hinar ýmsu þrautir.

Markmið keppninnar hér á landi er að er að efla raunvísindaáhuga barna og opna augu þeirra fyrir hátækni. Keppnin hófst klukkan níu í morgun og stendur til hálf fimm og fer hún fram í húsakynnum Marels en keppnin er styrkt af fyrirtækinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×