Sport

Stoudemire frá í fjóra mánuði

NordicPhotos/GettyImages
Lið Phoenix Suns varð fyrir gríðarlegu áfalli í dag þegar í ljós kom að lykilmaður liðsins, Amare Stoudemire, verði frá í allt að fjóra mánuði eftir að hann gekkst undir uppskurð á hné. Stoudemire er ein skærasta stjarnan í NBA deildinni í dag og skemmst er að minnast tilþrifa hans í úrslitakeppninni í vor. Stoudemire fór í uppskurð í dag þar sem ástandið á hné hans var metið með sérstakri tækni og þar kom í ljós að framkvæma þurfti aðgerð á hnénu undir eins. Hann hafði verið bólginn í hnénu allt undirbúningstímabilið og því var afráðið að skera hann upp til að komast að því hvað væri að hrjá hann. Þessi tíðindi eru liðinu skiljanlega mikið áfall, því það ætlaði sér stóra hluti í vetur. Stoudemire, sem kom in í deildina árið 2002 beint úr menntaskóla, sprakk út í fyrra og skipaði sér á bekk meðal allra bestu framherja/miðherja í deildinni. Hann skoraði að meðaltali 26 stig og hirti tæp 9 fráköst, en auk þess var hann með um 56% skotnýtingu. Í úrslitakeppninni bætti hann tölfræði sína til muna og skoraði meðal annars 37 stig að meðaltali í úrslitum vesturdeildarinnar á móti engum öðrum en Tim Duncan og félögum í meistaraliði San Antonio. Þessi tíðindi þýða væntanlega að Phoenix Suns þurfa að endurskoða væntingar sínar til tímabilsins eitthvað, því Stoudemire verður varla kominn á fullt aftur með liðinu fyrr en tímabilið, sem hefst um næstu mánaðamót er um það bil hálfnað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×