Sport

Troðsla tryggði sigurinn

Njarðvíkingar sigruðu á æfingamóti í Aarhus í Danmörku þegar liðið lagði heimamenn í Bakken Bears að velli í úrslitaleik með 69 stigum gegn 67. Heimamenn voru sjö stigum yfir þegar skammt var til leiksloka en Njarðvíkingum tókst að skora níu síðustu stigin í leiknum og unnu því með tveggja stiga mun. Egill Jónasson tryggði Njarðvíkingum sigurinn sex sekúndum fyrir leikslok með glæsilegri troðslu. Þetta er annað árið í röð sem Njarðvík vinnur á æfingamóti sem Bakken Bears heldur á þessum árstíma. Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, var að vonum ánægður með sína menn. "Þetta gekk ljómandi vel. Það var mikil dramatík undir lok leiksins þar sem okkur tókst að skora níu stig í röð og tryggja okkur sigurinn. Egill skoraði sigurkörfuna með því troða boltanum ofan í körfuna nokkrum sekúndum fyrir leikslok og það var einstaklega gaman að sigra með þeim hætti." Einar Árni sagði nokkra leikmenn danska liðsins hafa verið erfiða viðureignar vegna stærðarinnar. "Það voru fimm leikmenn yfir 205 sentímetrar og það olli auðvitað töluverðum vandræðum. En það er lærdómsríkt að spila gegn svo hávöxnum mönnum þar sem það eru ekki svo margir mjög hávaxnir leikmenn hér á landi." Þór frá Akureyri tók einnig þátt í mótinu og endaði í sjötta sæti eftir að hafa tapað fyrir Svendborg í leik um fimmta sæti. Einar Árni segir Njarðvíkinga ætla að koma grimma til leiks þegar Íslandsmótið hefst. "Þetta verður skemmtilegur vetur. Við erum að komast í gott form og verðum tilbúnir þegar mótið hefst. Ég á von á jafnri og skemmtilegri keppni í vetur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×