Sport

Sverrir Þór snýr aftur

Sverrir Þór Sverrisson, einn besti körfuboltamaður landsins, hefur ákveðið að leika áfram með Íslandsmeisturum Keflavíkur samhliða því að þjálfa kvennalið félagsins, líkt og hann gerði sl. vetur. Sverrir Þór hafði í hyggju að leggja körfuboltaskóna á hilluna en snerist hugur. "Það er orðið öruggt að ég verð með karlaliðinu á fullu í vetur. Ég hef mætt á tvær síðustu æfingar en er reyndar að fara með kvennaliðið í æfingaferð til Hollands. Ég fer svo sjálfur að æfa á fullu eftir þá ferð," sagði Sverrir Þór við Fréttablaðið. Stuðningsmenn Keflavíkur fagna ákvörðun Sverris Þórs en í tvígang hefur hann verið valinn besti varnarmaður landsins, 2003 og 2004. Sverrir Þór segist sjá fram á skemmtilegan vetur í körfuboltanum en karla- og kvennalið félagsins eru vel mönnuð og freista þess að verja Íslandsmeistaratitla sína. Það verður nóg um að vera hjá Sverri Þór en fyrir utan kvennaleikina spilar karlaliðið 18 til 23 leiki fram að áramótum en Keflavík tekur þátt í Evrópukeppninni. Um leið og körfuboltaleiktíðinni lauk í vor tók Sverrir Þór fram takkaskóna og lék með Njarðvík í 2. deildinni í sumar og skoraði 6 mörk í 16 leikjum og var valinn í lið ársins."Það hefur verið lítið um frí hjá mér. Þetta er töluvert álag, að spila og þjálfa í körfuboltanum og spila í fótboltanum yfir sumartímann. En um leið er þetta mjög gaman og ég myndi ekki treysta mér út í þetta nema að ég teldi mig ráða við þetta," sagði Sverrir Þór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×