Sport

Grindavík vann Bílavíkurmótið

Grindavík tryggði sér í kvöld sigur á Bílavíkurmótinu í körfubolta þegar liðið vann tíu stiga sigur á heimamönnum, 78-68, í úrslitaleik í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Fjölnismenn tryggðu sér þriðja sætið eftir 16 stiga sigur á Íslandsmeisturum Keflavíkur, 96-80 en Keflavík tapaði öllum leikjum sínum á mótinu. Grindavík var með eins stigs forustu í hálfleik, 38-39, eftir að Njarðvík hafði haft frumkvæðið mestan hluta fyrru hálfleiksins. Í seinni hálfleik komst Grindavík mest 14 stigum yfir, 47-61, Njarðvíkurliðið náði að jafna leikinn í 66-66 en Grindavík vann síðustu 4 mínútur leiksins 12-2. Páll Kristinsson var með 19 stig, 17 fráköst og 6 stoðsendingar hjá Grindavík í sínum fyrsta leik gegn gömlu félögunum í Njarðvík, Páll Axel Vilbergsson bætti við 18 stigum og 12 fráköstum og þá voru þeir Hjörtur Harðarson, Þorleifur Ólafsson og Guðlaugur Eyjólfsson allir með 11 stig. Hjá Njarðvík var Friðrik Stefánsson með 19 stig og 15 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson skoraði 16 stig, tók 11 fráköst og gaf 5 stoðsendingar, Kristján Rúnar Sigurðsson skoraði 16 stig og Örvar Þór Kristjánsson setti niður 12. Hjalti Þór Vilhjálmsson skoraði 32 stig í sigurleik Fjölnis á Keflavík, Tryggvi Pálsson var með 22 stig og 13 fráköst og bróðir hans Magnús bætti við 16 stigum, 9 fráköstum og 8 stoðsendingum. Hjá Keflavík var Magnús Þór Gunnarsson langatkvæðamestur með 34 stig, Gunnar H. Stefánsson skoraði 17 stig og Halldór Örn Halldórsson var með 10 stig og 18 fráköst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×