Sport

Dregið í Evrópukeppninni í körfu

Karlalið Keflavíkur og kvennalið Hauka eiga erfið verkefni fyrir höndum í haust, en um helgina var dregið í riðla í Evrópukeppni félagsliða í körfubolta. Keflvíkingar keppa í áskorendakeppni Evrópu, en fyrirkomulagi hefur verið breytt nokkuð frá því sem verið hefur og keppnin orðin sterkari en nokkru sinni fyrr.Keflvíkingar drógust í undanriðil með finnsku meisturunum í Lappeenranta NMKY og úkraínska liðinu Sumihimprom Sumy, en bæði þessi lið eru fyrnasterk að mati Sigurðar Ingimundarsonar. "Ég er ekki frá því að þessi lið séu hreinlega sterkari en liðin sem við myndum mæta í 16 liða úrslitunum ef við förum upp úr þessum riðli," sagði Sigurður þegar Fréttablaðið náði tali af honum þar sem hann var staddur úti í Munchen, þar sem forráðamenn liðsins voru að leggja lokahönd á að festa leikdagana, sem að sögn Sigurðar henta liðinu prýðilega. Keflvíkingar leika útileikina tvo á þremur dögum í endaðan október og leika svo heimaleikina með hálfsmánaðar millibili í Nóvember. Haukastúlkur eru fyrsta íslenska kvennaliðið sem tekur þátt í Evrópukeppni, en þær verða í riðli með spænska liðinu Caca Canarias frá Kanaríeyjum, en það er einmitt liðið sem Signý Hermannsdóttir lék með á sínum tíma, Polissportiva Ares Ribera frá Ítalíu og franska liðinu Pays D´Aix Basket 13. Haukastúlkur munu tefla fram kornungu liði í keppninni og forvitnilegt verður að sjá hvernig þeim reiðir af í sínu fyrsta Evrópuævintýri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×