Sport

Ekki hægt að fá fleiri færi í leik

Íslenska 21 árs landsliðið varð að sætta sig við markalaust jafntefli við Möltu á KR-vellinum í gær og jafnteflið er mikill sigur fyrir Möltubúa ef marka má viðbrögð þeirra eftir leik en þeir hafa fengið öll fjögur stigin í riðlinum út úr tveimur leikjum sínum við íslenska liðið. Tveir frábærir heimaleikir í fyrrahaust þar sem Búlgaría og Svíþjóð lágu bæði 3-1 gáfu góð fyrirheit fyrir leikina í þessari törn en þegar upp er staðið fékk íslenska liðið aðeins eitt stig og skoraði ekki mark í leikjunum tveimur. „Það er ekki hægt að fá fleiri færi í leik og það er alveg með ólíkindum að við höfum ekki náð að skora. Við sköpuðum okkur fullt að færum en náðum bara ekki að setja boltann yfir línuna. Það er að sjálfsögðu mjög svekkjandi því við áttum mikið meira skilið út úr þessum leik," sagði Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari. „Þetta datt ekki fyrir okkur í þessum tveimur leikjum en ég er viss um það að við eigum eftir að opna markareikninginn okkar aftur," bætti Eyjólfur við en íslenska liðið á nú eftir þrjá leiki í riðlinum, heimaleik gegn Króötum og útileiki gegn Búlgörum og Svíum. „Við fengum heilan helling að færum og hefðum átt að nýta eitthvert þeirra. Okkur vantar smáákveðni í að klára sóknirnar og við erum ekki að spila af sömu getu og við eigum að gera og höfum gert hingað til. Það sýnir sig bara að ef við erum ekki að spila 100% leik þá vinnum við ekki þessa leiki. Við ætluðum okkur stóra hluti í þessum tveimur leikjum en þetta gekk ekki upp hjá okkur. Við verðum bara að bæta okkur og koma sterkari til leiks næst. Það voru framfarir í dag frá því í Ungverjaleiknum enda kannski ekki annað hægt og það komu góðir kaflar inn á milli en því miður náðum við ekki að nýta færin," sagði Hannes Þ. Sigurðsson sem skoraði sex mörk í heimaleikjunum tveimur í fyrrahaust en komst eins og aðrir í liðinu ekki á blað í leikjunum gegn Ungverjalandi og Möltu. Sigur hjá 19 ára liðinu  Theódór Elmar Bjarnason skoraði bæði mörkin í 2–0 sigri 19 ára landsliðsins í vináttulandsleik gegn Svíum í gær. Fyrra markið gerði Theódór Elmar úr víti. Liðin mætast aftur í Sandgerði í hádeginu á fimmtudaginn. ooj@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×