Sport

Predrag Bojovic tekur við Haukum

Predrag "Kuki" Bojovic hefur verið ráðinn þjálfari úrvalsdeildarliðs Hauka í körfubolta og tekur við starfi Reynis Kristjánssonar. Bojovic hefur leikið með Haukum undanfarin fjögur ár og var aðstoðarþjálfari Reynis á nýloknu tímabili. Rekstrarstjóri kkd. Hauka, Emil Örn Sigurðarson, lét það vera sitt fyrsta verk að senda út fréttatilkynningu um nýjan þjálfara og hún hljóðar þannig: Körfuknattleiksdeild Hauka hefur ráðið Predrag Bojovic þjálfara Meistaraflokks Hauka næstu tvö árin. Predrag tekur við af Reyni Kristjánssyni sem stýrði sínum síðasta leik í bili er Haukar léku við Njarðvík í síðasta leik Íslandsmótsins á nýliðinni leiktíð. Predrag Bojovic er Haukum alls ekki ókunnugur. Hann hóf störf hjá félaginu 2001 sem þjálfari yngriflokka og jafnhliða því lék hann með meistaraflokki karla. Næstu tvö ár þjálfaði hann meistaraflokk kvenna og kom þeim t.a.m. upp í 1. deild á ný. Síðasta ár var Predrag aðstoðarmaður Reynis og sá jafnhliða því um þjálfun yngriflokka. Predrag er íþróttafræðingur að mennt, útskrifaður frá íþróttaháskólanum í Belgrad og hefur starfað við þjálfun undanfarin 7 ár. Samhliða ráðningu Predrags hefur verið gengið frá ráðningu aðstoðarmanns hans. Emil Örn Sigurðarson verður aðstoðarmaður Predrags en  Emil mun jafnframt gegna stöðu rekstrarstjóra Körfuknattleiksdeildarinnar. Haukar stefna á að koma meistaraflokki karla í fremstu röð og nú þegar samningur við þjálfara er frágenginn, liggur fyrir að skoða leikmannamál.  Fyrst og fremst verður garðurinn ræktaður og byggt á uppöldum heimamönnum, en þó verður markvisst leitast við styrkja hópinn með 2-3 nýjum leikmönnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×