Innlent

Brýtur blað í sögunni

Pálína Ásgeirsdóttir verður fyrst íslenskra hjúkrunarfræðinga til að gegna starfi yfirmanns spítalahjúkrunarþjónustu Alþjóða Rauða krossins í Genf. Hún tekur við starfinu um næstu mánaðamót. "Ég verð í samstarfi við aðra á skrifstofunni í Genf í spítalastjórnun og uppbyggingu Rauða krossins í þeim löndum þar sem hann aðstoðar sjúkrahús," sagði hún. Pálína hefur starfað af og til á vegum Rauða krossins síðan 1986. Hún hefur unnið á sjúkrahúsum sem almennur hjúkrunarfræðingur, svæfingarhjúkrunarfræðingur og stjórnandi. Síðustu tvö ár hefur hún verið í Afganistan, þar sem hún vann við sjúkrahús sem Rauði krossinn aðstoðar þar. Jafnframt starfaði hún fyrir hönd Rauða krossins með Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni, svo og stórum styrktaraðilum sem styrkt hafa uppbyggingu hjúkrunarþjónustu í Afganistan. "Starfið í Afganistan hefur verið mjög áhugavert," sagði Pálína. "Það hefur verið mjög gott samstarf milli þeirra sem unnið hafa að þessu verkefni. Við höfum verið að aðstoða heilbrigðisráðuneytið þar við að byggja upp stefnumótun í sjúkrahúsþjónustu fyrir allt landið. Þetta hefur verið áhugaverð og skemmtileg reynsla." Pálína sagði að ástandið í sjúkrahúsmálum í Afganistan væri ekki gott. Skiljanlega hefðu fjármunirnir fremur farið í að byggja upp heilsugæslu. Spítalarnir hefðu orðið útundan. Unnið hefði verið að því að byggja upp spítalaþjónustu sem væri hagkvæm og góð miðað við þær aðstæður sem væru í landinu. Þær væru bágbornar hvað varðaði húsnæði, allan tækjabúnað og menntun heilbrigðisstarfsmanna. Allt væri þetta í uppbyggingu, en ekki væri fyrirséð hvort nægilegir peningar fengjust í lágmarkshjúkrunarþjónustu. "Nú söðla ég um," sagði Pálína. "Ég verð hinum megin við borðið en ekki lengur í viðkomandi löndum. Ég verð í stuðnings- og mótunarhlutverki í Genf. Vissulega mun ég sakna þess í bland að starfa ekki úti á vettvangi, en ég mun heimsækja þau lönd sem Rauði krossinn styður í þessum málaflokki."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×