Sport

Enn eitt heimaleikjabannið á Roma

Ítalska knattspyrnuliðið Roma hefur fengið á sig enn eitt heimaleikjabannið vegna slæmrar hegðunar stuðningsmanna liðsins, það þriðja á innan við ári. Liðið var í dag úrskurðað til að leika heimaleik sinn gegn Fiorentina í 8 liða úrslitum ítölsku bikarkeppninnar fyrir luktum dyrum en ítalska knattspyrnusambandið kvað upp þá refsingu í dag. Stuðningsmenn liðsins létu öllum illum látum í leik gegn Siena í síðustu viku og köstuðu meðal annars flugeldum inn á völlinn með þeim afleiðingum að stöðva þurfti leikinn í klukkutíma vegna lélegs skyggnis. Skemmst er að minnast þegar Roma var dæmt í 3 leikja heimaleikjabann í Meistaradeildinni þegar kveikjara var kastað í höfuð Anders Frisk dómara í september sl. og á síðasta tímabili á Ítalíu var liðið úrskurðað að leika fjölda heimaleikja utan Rómarborgar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×