Skoðun

Jólafasta?

Jólakötturinn skrifar
Góðir lesendur!

Aðventan er líka stundum kölluð jólafasta og það finnst mér alveg magnað. Mér skilst að hún sé kölluð svo vegna þess að víða sýndi fólk mikið aðhald í neyslu matar og drykkjar á þessum árstíma og borðaði til dæmis ekkert kjöt. Örugglega eitthvað úr kaþólskum sið. Kannski var ekkert mikið til að borða eða fólk var að spara sig fyrir jólaátið um jólahátíð. En það er sko liðin tíð. Ég sé mannfólkið nefnilega aldrei borða meira en einmitt á jólaföstunni. Nú sem aldrei fyrr er leyfilegt að borða og borða og borða og afsökunin er alltaf sú sama, þetta er jú bara einu sinni á ári, þetta jólabrauð/kaka/ostur/rauðvín/konfekt er jú bara hér og nú, engin hætta á því að maður fari að borða svona á hverjum degi. En raunin er nú samt sú að það verður á hverjum degi.

Ýmislegt annað fer úr skorðum á þessum árstíma en mataræði mannfólksins, svo sem viðvera á heimilinu, sameiginlegur kvöldverður fjölskyldunnar og margt fleira. Tíminn virðist fara úr skorðum og allt verður svo losaralegt.

Til dæmis vill oft gleymast að skella mat í skál fyrir okkur kettina sem aldrei förum neitt. Jólafasta er ekki rétta orðið finnst mér, nema ef vera skyldi fyrir ketti og önnur heimilisdýr.

Ég sting hér með upp á orðinu jólalos fyrir þetta tímabil í lífi mannfólksins.

Lifið heil!




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×