Erlent

Þynnsta borðtölva í heimi kynnt

Apple afhjúpaði um mánaðamótin nýja iMac G5 tölvu sem inniheldur hinn gríðarlega öfluga G5-örgjörva og sláandi glæsilega hönnun þar sem tölvan er felld innan í flatskjá. iMac G4 er innan við tvær tommur að þykkt og er því þynnsta borðtölvan á markaðnum. Í nýju línunni er 17- eða 20- breiðtjalds flatskjár og 1,6 eða 1,8GHz 64-bita G5 örgjörvi. "Líkt og iPod endurskilgreindi tónlistarspilara gerir nýja iMac G5 tölvan það sama á vettvangi borðtölva. Þar sem tölvan er innan við tvær tommur að þykkt og með þessum stóru skjáum eiga vafalaust ansi margir eftir að velta því fyrir sér hvað hafi eiginlega orðið af tölvunni," er haft eftir Phil Schiller framkvæmdastjóra markaðssviðs Apple. Hönnun iMac G5 leggur nýjar línur í einfaldleika hönnunar þar sem öll tölvan, spennubreytirinn, harði diskurinn, geisladrifið og möguleiki á þráðlausu netkorti er allt innbyggt í þessu knappa formi sem hvílir svo á álfæti. Öll tengi eru í snyrtilegri röð aftaná og er möguleiki á innbyggðu AirPort Extreme netkorti fyrir þráðlaust netsamband og auðvitað blátannarbúnað vilji menn fækka snúrunum enn frekar og nota þráðlaust lyklaborð og mús. Einnig geta notendur fengið sér AirPort Express aukalega og tengt prentarann, ADSL samband og hljómtækjasamstæðuna til að losna endanlega við allt nema rafmagnssnúruna. Áætlað er að sala hefjist hjá Apple hér á landi í lok september.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×