Handbolti

Anton og Jónas dæma í Final Four í Köln

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jónas Elíasson.
Jónas Elíasson. Vísir/Stefán
Besta handboltadómarapar landsins hefur fengið flotta viðurkenningu frá evrópska handboltasambandinu því íslensku dómararnir hafa verið valdir til að dæma á stærstu handboltahelginni í Evrópu.

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson hafa nefnilega fengið úthlutað leik á úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu sem fram fer í Köln 28. til 29. maí næstkomandi. Þetta kemur fram á heimsíðu HSÍ.

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson  munu dæma leikinn um þriðja sætið sem fer fram sunnudaginn 29. maí.

Liðin sem hafa tryggt sér sæti í Final Four þetta árið eru MVM Vezprém, Vive Tauron Kielce, PSG Paris og THW Kiel.

Það verður Íslendingaslagur í undanúrslitunum þegar Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska liðinu Kiel taka á móti Aroni Pálmarssyni og liðsfélögum hans í ungverska liðinu Vezprém.

Það er því öruggt að þeir Anton og Jónas munu dæma hjá öðru Íslendingaliðinu og þau gæti verið tvö því lið Róberts Gunnarssonar, PSG Paris, er einnig í undanúrslitunum í ár.

Þetta verður stórt ár fyrir Anton Gylfa Pálsson og Jónas Elíasson því í ágúst munu þeir dæma í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Ríó í Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×