Sport

„Keyrðu yfir okkur og við leyfðum því bara að gerast“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Arnar Guðjónsson hefur áhyggjur af frammistöðu liðsins.
Arnar Guðjónsson hefur áhyggjur af frammistöðu liðsins. vísir/Anton

Tindastóll tapaði með 38 stiga mun gegn Stjörnunni í kvöld, 125-87. Arnar Guðjónsson fór ekki leynt með það að hann hafi áhyggjur af frammistöðu liðsins í síðustu tveimur leikjum í deildinni.

„Mér fannst svolítil uppgjöf í þessu hjá okkur, þetta voru bara vonbrigði. Frammistaðan léleg og andleysi í okkur“, sagði Arnar Guðjónsson, þjálfari Tindastóls, eftir tap liðsins í kvöld.“

Tindastóll tapaði gegn Keflavík í síðustu umferð og talaði Arnar þá um eftir leikinn að liðið hefði ekki verið nógu beitt, byrjað leikinn illa og eftir það elt allan leikinn. Það má segja að það hafi verið svipað uppi á teningnum í kvöld.

„Þetta var í raun og veru framhald af frammistöðunni gegn Keflavík, Stjarnan gekk á lagið og keyrðu yfir okkur og við leyfðum því bara að gerast.“

Félagaskiptaglugginn lokar annað kvöld á miðnætti og það er spurning hvort Tindastóll muni gera einhverjar breytingar á liði sínu, eða eins og Arnar segir að hrista upp í hlutunum.

„Við þurfum að hrista okkur saman og hrista upp í hlutunum. Við verðum að vera með meiri árásargirni og áræðni í því sem við gerum, ég held það gefi auga leið. Það er risa leikur á þriðjudaginn og við þurfum núna að fara að setja saman alvöru frammistöðu.“

Hefurðu einhverjar áhyggjur af þessum frammistöðum liðsins?

„Jájá, þetta starf er þannig að þú hefur alltaf áhyggjur... já ég hef áhyggjur af þessari frammistöðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×