Erlent

Maður sprautaði illa lyktandi vökva á Ilhan Omar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Omar hélt áfram ræðu sinni þegar hún hafði jafnað sig eftir atvikið. Vökvinn er sagður hafa lyktað eins og edik.
Omar hélt áfram ræðu sinni þegar hún hafði jafnað sig eftir atvikið. Vökvinn er sagður hafa lyktað eins og edik. Getty/Brandon Bell

Maður réðist að þingkonunni Ilhan Omar á íbúafundi í Minneapolis í gærkvöldi og sprautaði á hana óþekktu og illa lyktandi efni. Maðurinn var yfirbugaður af öryggisvörðum og Omar hélt áfram með ræðu sína.

Ef marka má New York Times virðist viðstöddum hafa brugðið illa við árásinni en Omar hefur ítrekað verið skotspónn Donald Trump Bandaríkjaforseta í gegnum tíðina, sem hefur meðal annars sakað hana um að hata Bandaríkin. Raunar hafði hann skömmu fyrir árásina gagnrýnt hana á kosningafundi í Iowa, þar sem hann fór einnig illum orðum um Sómalíu, þar sem Omar fæddist.

Maðurinn lét til skarar skríða eftir að Omar kallaði eftir því að innflytjendastofnunin ICE, sem hefur verið í fararbroddi í afar umdeildum aðgerðum stjórnvalda í Minneapolis og víðar, yrði lögð niður og heimavarnaráðherrann Kristi Noem látin fara.

Omar komst augljóslega úr jafnvægi en biðlaði til viðstaddra um að gefa sér tíu mínútur til að jafna sig og svo myndi hún halda áfram. „Ég bið ykkur. Ekki leyfa þeim að stela sviðsljósinu.“ Þá sagði hún þegar hún hélt áfram: „Þetta er veruleikinn sem fólk eins og þessi ljóti maður skilur ekki: Við erum Minnesota-sterk og við munum standa óbeygð gagnvart hverju sem þeir taka upp á gegn okkur.“

Maðurinn hefur verið nafngreindur sem Anthony J. Kazmierczak, 55 ára. Rannsókn stendur yfir á atvikinu. Árásin hefur verið foræmd af Jacob Frey, borgarstjóra Minneapolis, og fleiri stjórnmálamönnum. Sumir stuðningsmanna Trump hafa hins vegar haldið því fram á samfélagsmiðlum að árásin hafi verið sviðsett.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×