Skoðun

Steinunni í borgar­stjórn

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar

Kæru félagar í Samfylkingunni í Reykjavík.

Í dag veljum við fólk á lista Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor og ber fjöldi frambjóðenda og nýrra flokkfélaga sterkri stöðu flokksins vitni. Verkefni okkar á næstu mánuðum verður að tryggja góðan árangur í kosningunum svo að Samfylkingin verði áfram í forystu í borginni með áherslu á lifandi borg og góða nærþjónustu.

Traust baráttukona

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir sækist eftir 2. sæti í forvalinu. Frá því að við kynntumst fyrir tæpum 20 árum síðan hef ég beðið þess að hún tæki stökkið og færi í framboð. Nú er hún loksins komin fram og gerir það auðvitað af sama krafti, áhuga, hlýju og fjöri eins og allt annað sem hún tekur sér fyrir hendur.

Steinunn er hugsjónakona, rekstrarkona og á einstaklega auðvelt með að leiða fólk saman til að finna sameiginlegar lausnir. Hún var framkvæmdastjóri UN Women á Íslandi og í Japan þar sem hún gat hún sér gott orð m.a. fyrir vasklega framgöngu í fjáröflun, en enn í dag er Íslandsdeild UN Women með hæstu framlögin í kjarnasjóð UN Women, en sjóðurinn styður verkefni gegn kynbundnu ofbeldi og kynjamisrétti. Steinunn var síðan talskona Stígamóta um árabil og virk innan samtakanna í verkefnastjórn, fræðslu, fjáröflun og uppbyggingu úrræða. Síðustu ár hefur hún starfað sem ráðgjafi hjá Aton þar sem hún hefur unnið fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök við stefnumótun, greiningu og í samskiptamálum.

Sterkari listi með Steinunni í 2. sæti

Það er mikill fengur fyrir Samfylkinguna að fá Steinunni til forystu í borginni. Steinunn er prinsipföst, vön að takast á við flókin verkefni í flóknu umhverfi og finna farsæla lausn. Hún er jafnaðarmanneskja í húð og hár og femínisti sem nýtur mikillar virðingar fyrir yfirvegun, rökfestu og staðfestu.

Það er mikilvægt að Samfylkingin bjóði fram sigurstranglegan lista í vor sem höfðar til breiðs hóps borgarbúa. Með Steinunni í 2. sæti verða okkur allir vegir færir. Áfram Steinunn og Samfylking.

Höfundur er fyrrverandi þingkona Samfylkingarinarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×