Skoðun

Lykilár í fram­kvæmdum runnið upp

Útboðsáætlun Landsvirkjunar 2026 endurspeglar mikla breidd verkefna. Á Vaðöldusvæði, þar sem fyrsta vindorkuver landsins rís, verða m.a. boðin út verk tengd þjónustubyggingum, landmótun og frágangi. Við Hvammsvirkjun er fyrirhugað að bjóða út jarðvinnu, byggingarvirki, aflspenna, háspennustrengi, lokubúnað, fallpípur og stöðvarbúnað, auk eftirlitsverka.

Við Sigöldustöð og á Þeistareykjum snúa útboðin meðal annars að rekstri vinnubúða, byggingarframkvæmdum, jarðvegsframkvæmdum, gufuveitum, vél- og rafbúnaði og eftirliti. Allt skapar þetta fjölmörg tækifæri fyrir innlenda og erlenda verktaka með sérhæfða þekkingu.

Stór virkjunarverkefni af stað

Eitt mesta framkvæmdatímabil í sögu Landsvirkjunar er nú runnið upp. Helstu nýframkvæmdir orkufyrirtækis þjóðarinnar á árinu tengjast stórum virkjunarverkefnum. Þar ber hæst Vaðölduver (120 MW) og Hvammsvirkjun (95 MW), auk stækkunar Sigöldustöðvar (65 MW). Þá er einnig áformuð uppsetning toppþrýstingsvélar við Þeistareyki (25 MW). Þessi verkefni munu samanlagt skila umtalsverðri aukningu í raforkuframleiðslu og styrkja orkukerfið til framtíðar.

Á þessu ári bjóðum við út bæði nýframkvæmdir og stór endurbótaverkefni víða um land. Markmiðið er að tryggja áframhaldandi áreiðanleika orkukerfisins, auka afkastagetu og styðja við orkuskipti og loftslagsmarkmið Íslands.

70 milljarða útboð

Áætluð útboð í ár vegna verklegra framkvæmda nema um 70 milljörðum króna. Um 70% þeirrar upphæðar fara í verkefni tengd jarðvinnu og byggingum og um 22% í vélbúnað. Auk nýframkvæmda leggur Landsvirkjun ríka áherslu á endurbætur og endurnýjun núverandi mannvirkja. Áætlað er að verja um 6 milljörðum króna í endurbótaverkefni á árinu 2026.

Endurbótaverkefni á Þjórsársvæðinu kalla á rúman helming þeirrar upphæðar en annars dreifast þau víða, meðal annars í Soginu, við Búrfell, Sultartanga, Hrauneyjarfoss, Sigöldu og Laxárstöðvar. Þar má nefna endurnýjun stjórnkerfa, hverfilshjóla, lokubúnaðar og stöðvarveitna, auk viðgerða á stálmannvirkjum.

Umsvifin munu setja svip sinn á atvinnulíf og efnahagsmál í ár og á komandi árum.

Sjálfbærni í forgrunni

Yfir 90% útboðsverkanna tengjast leyfisskyldum framkvæmdum, sem undirstrikar mikilvægi vandaðs undirbúnings, samráðs og faglegra vinnubragða. Samhliða þessu vinnum við hjá Landsvirkjun markvisst að því að draga úr kolefnisspori framkvæmda.

Með þessum umfangsmiklu útboðsáformum sendir Landsvirkjun skýr skilaboð til markaðarins: fram undan eru fjölbreytt og krefjandi verkefni sem kalla á sérþekkingu, gæði og nýsköpun. Verktakar eru hvattir til að kynna sér útboðsáætlanir nánar á vef fyrirtækisins og taka virkan þátt í uppbyggingu framtíðarorkukerfis Íslands.

Til viðbótar við þessi útboðsáform munu ýmis minni verk falla til á þessu framkvæmdatímabili. Markmið okkar er að stuðla að jákvæðum samfélagsábata af starfsemi fyrirtækisins og viljum við því gjarnan komast í samband við minni fyrirtæki, einyrkja eða einstaklinga í nærsamfélaginu. Nánari upplýsingar er að finna á landsvirkjun.is/verktakar.

Höfundur er framkvæmdastjóri framkvæmda hjá Landsvirkjun.




Skoðun

Sjá meira


×