Skoðun

Við erum að missa klefann

Arnar Ingi Ingason skrifar

Ég er aðfluttur Reykvíkingur. Hér hef ég búið í tæpan áratug með stuttu stoppi erlendis. Jafn lengi hef ég verið skráður í Samfylkinguna og enn lengur verið krati. Á þessum tæpu tíu árum hef ég horft á borgina þróast í jákvæða átt og menningarlífið okkar auðgast og blómstra. Þessi þróun hefur átt sér stað undir stjórn Samfylkingarinnar.

Undanfarið ár hef ég þó verið hugsi yfir stefnu flokksins í borginni.

Í samtölum mínum á undanförnum vikum við flokksfélaga sem og annað fólk í mínu nærumhverfi, hvort sem það er óflokksbundið eða yfir höfuð fylgist lítið með pólitík, hef ég fundið fyrir því að það er komin þreyta í mannskapinn. Fólki líður eins og núverandi borgarstjórnarmeirihluti vinni ekki að því sem skiptir mestu máli, að augun séu ekki á boltanum. Þessar áhyggjur get ég tekið undir.

Okkur jafnaðarfólki hefur verið treyst til að stýra borginni um langt skeið, en við erum að missa klefann. Traust til borgarfulltrúa er lítið og borgarstjóri nýtur ekki mikilla vinsælda út fyrir raðir flokksins. Í svona stöðu þarf nýjan mann í brúnna.

Ég treysti Pétri Marteinssyni til að leiða Samfylkinguna til sigurs í vor. Það er mikill fengur fyrir okkur jafnaðarfólk að fá mann með hans reynslu úr bæði rekstri og skipulagsmálum ferskan að borðinu. Pétur er maður með hjartað á réttum stað og dæmin sýna að þarna er á ferðinni maður sem hefur raunverulega ástríðu fyrir því að auðga nærumhverfi borgarbúa.

Við stöndum á tímamótum. Samfylkingin verður að hljóta sterka kosningu í vor til að standa vörð um þær jákvæðu breytingar sem flokkurinn hefur leitt síðasta áratug. Við verðum að koma í veg fyrir að hægri öflin nái að hræða fólk til þess að kjósa sína sundrunarstefnu. Til að hljóta það umboð verðum við að stokka upp, endurheimta traust borgarbúa og snúa vörn í sókn.

Kjósum Pétur Marteinsson til forystu á laugardaginn!

Höfundur er tónlistarmaður. 




Skoðun

Sjá meira


×