Skoðun

Steinunn GG hefur það sem mestu skiptir

Sverrir Þórisson skrifar

Hvort sem okkur hinum líkar það betur eða verr, þá þurfum við stjórnmálafólk. Og það skiptir miklu að við fáum gott fólk í þá vinnu. Mig langar að mæla með frambjóðanda í prófkjöri Samfylkingarinnar sem var að stíga fram í fyrsta skipti. Hún er það ferska blóð sem Samfylkingin þarf núna enda fádæma röggsöm og skemmtileg. Hún heitir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir.

Ég er fæddur í Reykjavík árið 1953 og hef búið hér stærstan hluta ævinnar. Hef því séð borgina okkar breytast ansi mikið gegnum áratugina. Með kosningasigrum Reykjavíkurlistans, breiðfylkingu félagshyggjufólks, varð grundvallarbreyting á því hvernig borginni var stjórnað. Hún varð opnari, víðsýnni, skemmtilegri, grænni. Leikskólabyltingin var gerð, sem breytti öllu fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Aðstaða fyrir aldraða og öryrkja um alla borg tók stakkaskiptum. Þótt Reykjavíkurlistans nyti ekki lengur við gerðust góðír hlutir í framhaldinu með Samfylkinguna við stjórnvölinn.

Ég hef fylgst með Steinunni í gegnum dóttur mína og hef mikla trú á Reykvíkingnum og heimsborgaranum Steinunni. Sem afi margra barnabarna vil ég konu í borgarstjórn sem var talskona Stígamóta og þekkir vel til baráttunnar gegn kynbundnu ofbeldi, meðal annars þess að ná til unglinga. Sem afa finnst mér líka mikilvægt að hún leggur skýra áherslu á úrbætur í leikskólamálum og sem jafnaðarmaður styð ég fókusinn á öruggt húsnæði fyrir alla borgarbúa. Steinunn hefur líka reynslu af fjármálum og leggur uppúr ábyrgum rekstri borgarinnar. Hún vill borg sem stendur með fólki. Og hún er með hjartað á réttum stað. Það skiptir mestu.

Ég heiti Sverrir Þórisson og ég er jafnaðarmaður og femínisti. Þess vegna kýs ég Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur í 2. sætið í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Höfundur er fyrrum skólastjóri og kennari.




Skoðun

Sjá meira


×