Skoðun

Að byggja upp flæði og traust í heil­brigðis­kerfinu

Sandra B. Franks skrifar

Í nýlegri grein hér á Vísi setur Jón Magnús Kristjánsson skýrt fram hvers vegna endurtekið álag og ófremdarástand skapast á bráðamóttöku Landspítala. Umfjöllunin er mikilvæg og gagnleg og setur í orð þann veruleika sem heilbrigðisstarfsfólk og sjúklingar upplifa ítrekað. Hún sýnir að álag á bráðamóttöku er ekki einangrað vandamál, heldur afleiðing flæðisvanda annars staðar í heilbrigðiskerfinu, greining sem er bæði rétt og nauðsynleg.

Til að byggja upp traust í heilbrigðiskerfinu þurfum við þó að horfa á alla keðjuna, ekki aðeins rými og ferla, heldur einnig mannauð, hlutverk og samfellu þjónustunnar.

Fráflæðisvandi snýst um fólk, ekki aðeins pláss

Skortur á hjúkrunarrýmum, endurhæfingarúrræðum og stuðningi utan spítala hefur bein áhrif á bráðamóttöku. Það er vel þekkt. Rúm og ferlar segja þó aðeins hluta sögunnar, því þar á bakvið eru sjúklingar og fagfólk.

Þegar uppsöfnun verður á bráðamóttöku eru það sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar, læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir sjúklingum og aðstandendum við erfiðar aðstæður, oft í þrengslum og undir miklu álagi. Það er gert af fagmennsku og ábyrgðartilfinningu, jafnvel þegar aðstæður eru langt frá því að vera ásættanlegar. En styrkur kerfisins verður að veikleika ef þetta er gert að varanlegu ástandi.

Heimahjúkrun, mannauður og samhæfing

Ein af rótum flæðisvandans er að heimahjúkrun og þjónusta utan spítala hefur ekki verið efld í sama takti og ábyrgð hennar hefur aukist. Sífellt veikari og hrumari einstaklingar búa heima lengur, sem er rétt stefna, en aðeins ef þjónustan fylgir með. Heimahjúkrun er ekki jaðarþjónusta heldur kjarnastarf heilbrigðiskerfisins og forsenda öruggra útskrifta. Þegar hún er vanmönnuð eða veik í framkvæmd verður spítalinn sjálfkrafa endastöð kerfisins, með fyrirsjáanlegum afleiðingum á bráðamóttöku.

Mönnun er oft nefnd sem áskorun í umræðu um flæði, en hún er jafnframt lykilforsenda þess að lausnir skili árangri. Allri þjónustu er haldið uppi af fólki með rétta þekkingu og reynslu, á réttum stað í kerfinu.

Sjúkraliðar eru meðal þeirra stétta sem bera uppi daglega heilbrigðisþjónustu og sinna grunnþörfum sjúklinga allan sólarhringinn, oft við krefjandi aðstæður. Menntun þeirra hefur þróast hratt á undanförnum árum, meðal annars með sérhæfðu diplómanámi við Háskólann á Akureyri. Það er mjög brýnt er að sú þekking nýtist í skýrum og markvissum hlutverkum.

Ein leið til að bæta flæði er að efla samhæfingu í nærþjónustu með því að nýta betur sérhæfða þekkingu sem þegar er til staðar. Slík nálgun gæti aukið yfirsýn og samfellu í þjónustu við fólk með flóknar og langvarandi þarfir. Í því samhengi mætti hugsa sér ný eftirfylgni- og samhæfingarhlutverk í heilsugæslu fyrir sérhæfða sjúkraliða, til dæmis sem málastjóra aldraðra, í samræmi við viðbótarmenntun þeirra og reynslu. Slík hlutverk gætu styrkt tengingu milli spítala, heimahjúkrunar og félagsþjónustu og stutt aðstandendur með markvissri eftirfylgd.

Skýr ábyrgð og framtíðarsýn

Mikilvægt er að halda þessari umræðu á málefnalegum og uppbyggilegum nótum. Allt fagfólk heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar vinnur að sama markmiði, þ.e. að tryggja örugga, faglega og mannsæmandi þjónustu.

Viðvarandi álag á bráðamóttöku er ekki óhjákvæmilegt, heldur merki um kerfi sem þarf a‘ styrkja. Með markvissri uppbyggingu heimahjúkrunar, betri nýtingu á sérhæfðri þekkingu sjúkraliða og skýrri samhæfingu í nærþjónustu má rjúfa vítahringinn og byggja upp traust til framtíðar. Til þess þarf skýra forgangsröðun og samræmda ábyrgð ríkis og sveitarfélaga.

Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands.




Skoðun

Skoðun

Byggjum fyrir fólk

Hafdís Hanna Ægisdóttir,Hjördís Sveinsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×