Innlent

Ekkert at­huga­vert við fundinn og stjórnin starfshæf

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Stjórn FAB segir ekkert athugavert við fundinn þar sem ákveðið var að lýsa yfir vanhæfi á rektor skólans.
Stjórn FAB segir ekkert athugavert við fundinn þar sem ákveðið var að lýsa yfir vanhæfi á rektor skólans. vísir/vilhelm

Stjórn Félags akademískra starfsmanna Bifrastar (FAB) segir að stjórnendur bifrastar, þar með talið rektor, byggi á því fyrir stjórn skólans að ekki hafi verið staðið rétt að málunum á fundi félagsins á miðvikudag þegar vantrausti var lýst yfir á yfirstjórn skólans. FAB segir ekkert til í þeim málflutningi.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn félagsins. Þar segir meðal annars:

„Stjórn félagsins bárust upplýsingar um það að stjórnendur Háskólans á Bifröst byggi nú á því að eitthvað hafi verið athugavert við framkvæmd félagsfundarins og að stjórn sé ekki fullmönnuð og félagið þ.a.l. ekki starfhæft. Ekkert er hæft í þessum vangaveltum. Hér er auk þess augljóslega á ferðinni tilraun til þess að beina athyglinni frá aðalatriði málsins sem eru efnisatriði ályktunar félagsmanna og sú staðreynd að málarekstur rektors, deildarforseta viðskiptadeildar og rannsóknarstjóra gegn þremur félagsmönnum FAB hefur valdið þeim alvarlega trúnaðarbresti sem lýst var í ályktuninni.“

Greint var frá því í vikunni að Félag akademískra starfsmanna Bifrastar (FAB) hafi lýst yfir vantrausti á Margréti Jónsdóttir Njarðvík, rektor skólans, yfirmann viðskiptadeildar og rannsóknarstjóra Bifrastar. Það kom í kjölfar þess að yfirstjórn skólans nýtti gervigreindarlíkanið Claude til að meta það hvort þrír starfsmenn skólans hefðu verið réttilega skráðir meðhöfundar tveggja fræðigreina. 

Í gögnum málsins kemur fram að persónugreinanlegum og höfundarréttarvörðu efni hafi verið hlaðið upp í mállíkanið. Þar kemur einnig fram að rektor hafi óskað eftir því við siðanefnd skólans að starfsmennirnir þrír yrðu ekki látnir vita að mál þeirra væri til skoðunar. Siðanefnd hafnaði því á grundvelli meginreglna stjórnsýsluréttar. Rektor Bifrastar hefur ekki gefið kost á viðtali vegna málsins.

Hanna Kristín Skaftadóttir, lektor við Háskólann á Bifröst, er ein þeirra sem eiga hlut að máli en hún tjáði sig í yfirlýsingu í gær. Þess ber að geta að Hanna Kristín er jafnframt formaður FAB en hún tók við formennsku á föstudag. 

Umrætt mál er nú til skoðunar hjá Siðanefnd Bifrastar, stjórn skólans og Persónuvernd. 

„Stjórnendur Háskólans á Bifröst hafa meðal annars brugðist við ályktuninni með því að halda því fram að félagsfundurinn hafi verið ómarktækur eða ólögmætur. Að gefnu tilefni er því rétt að halda eftirfarandi staðreyndum til haga,“ segir í yfirlýsingu FAB.

Þar er ítrekað að félagið hafi verið sett á laggirnar í apríl árið 2025 til að standa vörð um réttindi félagsmanna, vinna að bættri starfsaðstöðu félagsmanna og hafa aðkomu að skipulagsbreytingum.

Aðeins akademískir starfsmenn Háskólans á Bifröst sem eru fastráðnir kennarar og eiga sæti á deildarfundum skólans geta tilheyrt FAB. Félagsmenn eru 27 talsins en sautján félagsmenn sóttu fundinn þar sem greidd voru atkvæði varðandi yfirlýsingu um vantraust. Sextán greiddu atkvæði með yfirlýsingunni.

„Á fundinum las fundarstjóri upp drög að ályktun sem var í kjölfarið samþykkt af yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna. Samkvæmt samþykktum félagsins ræður einfaldur meirihluti mættra félagsmanna úrslitum mála á félagsfundum. Þá lá fyrir fundinum ósk þriggja stjórnarmanna að ganga úr stjórn. Í lok fundarins var stjórn skipuð þremur stjórnarmönnum og voru tveir stjórnarmenn félagsvísindadeildar tilnefndir í stjórn félagsins á deildarfundi deildarinnar daginn eftir. Stjórn félagsins er því fullskipuð og er hún skipuð tveimur fulltrúum úr viðskiptadeild, tveimur fulltrúum úr félagsvísindadeild og einum fulltrúa úr lagadeild.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×